Hagur sveitarfélaga landsins hefur vænkast verulega undanfarin ár í takt við uppsveifluna í hagkerfinu. Bergþóra Baldursdóttur, sérfræðingur í greiningu og samskiptum hjá Íslandsbanka og einn höfunda skýrslu Íslandsbanka um fjárhagsstöðu sveitarfélaganna veltir upp hvort íbúar sveitarfélaganna megi fara að gera meiri kröfur. Þá er spurning hvort við sem íbúar sveitarfélaga ættum að gera auknar kröfur um aukna þjónustu, fjárfestingu í innviðum eða lækkun útsvars. Það eru 56 sveitarfélög með hámarks útsvar,“ bendir Bergþóra á en sveitarfélögin verða 72 þegar búið er að ganga frá sameiningum Fjarðabyggðar og Breiðdalshrepps annars vegar og Sandgerðis og Garðs hins vegar.

Sveitarfélögin þurfi þó að fara að huga að framtíðinni vegna fyrirsjáanlegra breytinga á aldurssamsetningu þjóðarinnar að sögn Bergþóru. „Þjóðin er að eldast sem er ákveðið áhyggjuefni fyrir sveitarfélögin. Þá fá þau ekki jafn miklar tekjur og eldra fólk nýtir þjónustu sveitarfélaganna í meira mæli,“ segir Bergþóra. Sveitarfélögin hafa þó enn dágóðan tíma til að bregðast við. Í skýrslu Íslandsbanka segir að bætt afkoma skýrist meðal annars af lægri fjármagnsgjöldum sökum lægri skuldsetningar og hagstæðara lánaumhverfis. Helstu kostnaðarliðir sem sett hafi svip sinn á afkomuna séu breytingar á lífeyrisskuldbindingum samkvæmt skýrslunni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .