Útgefnir og ónýttir vildarpunktar Icelandair eru metnir á 18,1 milljón Bandaríkjadala, eða sem samsvarar 2,7 milljörðum íslenskra króna að því er Morgunblaðið greinir frá upp úr bókum félagsins.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um leitast félagið nú að því að ná samningum við flugáhafnir svo hægt sé að fara í 30 milljarða króna hlutafjárútboð til að fleyta því yfir ástandið sem myndast hefur vegna útbreiðslu kórónuverirunnar.

Samkvæmt svari félagsins hefur ekki komið til tals að fella niður þau áunnu fríðindi sem á bakvið punktana eru nú þegar fjárhagsleg endurskipulagning félagsins stendur yfir.

Vildarpunktarnir hafa verið nýtanlegir inn á flugferðir, hótelgistingu og bílaleigu, en þeir eru misverðmætir á móti krónum eftir því hvaða þjónusta er keypt. Til að mynda hefur hver vildarpunktur numið 0,6 krónum við kaup á máltíðum um borð í vélum félagsins.