Landsvirkjun hefur næga raforku til að standa við samninga við United Silicon um afhendingu raforku til kísilvers fyrirtækisins í Helguvík. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu .

Allir viðskiptavinir Landsvirkjunar fá afhent forgangsrafmagn. Magnús Þór Gylfason, yfirmaður samskiptasviðs Landsvirkjunar, segir í samtali við Morgunblaðið að ákveðinn sveigjanleiki sé til staðar til að minnka afhendingu, s.s. vegna slakrar vatnsstöðu eins og raunin hefur verið síðustu ár.

Fyrsti bræðsluofn United Silicon verður ræstur í maí. Hann þarf raforku sem svarar til 35 megawatta afls, samkvæmt raforkusölusamningi sem Landsvirkjun gerði við fyrirtækið á síðasta ári. Magnús Þór segir að Landsvirkjun eigi óselt rafmagn til reiðu í rafkerfi sínu sem veitt verði fyrirtækinu.