Vogunarsjóðurinn Teleios Capital keypti hluti í Marel fyrir tæpan milljarð króna í síðustu viku, en fyrir átti sjóðurinn bréf í félaginu að andvirði yfir 2 milljarða, samkvæmt frétt Fréttablaðsins í morgun .

Sjóður í stýringu vogunarsjóðsins keypti rúmlega 2 milljónir hluta, og á nú samtals 7,3 milljónir, sem jafngildir 1,07% eignarhlut og er rúmlega 3,2 milljarða virði á gengi dagsins í dag.

Eftir kaupin er sjóðurinn 17. stærsti hluthafi félagsins, en hann keypti sín fyrstu bréf í því í lok síðasta mánaðar.

Sjóðurinn – sem var stofnaður árið 2013 – er með eignir upp á um það bil milljarð dollara, um 120 milljarða króna, í stýringu.