*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Innlent 30. maí 2018 15:25

Eiga ofgreidda vexti inni hjá bankanum

Hæstiréttur dæmdi að um 1.700 viðskiptavinir Íslandsbanka hefðu greitt of háa vexti. Fjárhæðin getur verið allt að nokkrar milljónir.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Af um 1.700 viðskiptavinum Íslandsbanka sem Hæstiréttur dæmdi nýlega að hefðu þurft að greiða of háa vexti hafa 1.200 fengið tilkynningu um endurgreiðslu frá bankanum.

Enn á eftir að endurgreiða um 500 viðskiptavinum að því er RÚV greinir frá, en ekki er búið að tilkynna þeim um greiðslurnar. Um er að ræða flóknari tilvik en hin 1.200, en þó margir fái um tugi eða hundruð þúsunda greiðslur, fá örfáir nokkrar milljónir endurgreiddar. Það séu þó helst þeir örfáum sem ekki þáðu að fresta fyrstu endurskoðun vaxta á sínum tíma.

Í október á síðasta ári komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að bankanum hefði ekki verið heimilt að hækka vextiá verðtryggðu fasteignaláni sem tekið var fyrir bankahrun.

Byggðist ákvörðunin á því að ákvæði um vaxtaendurskoðun stæðust ekki neytendalög, en í lánssamningnum var ákvæði um vaxtaendurskoðun á fimm ára frest. Ekki var þess þó getið við hvaða aðstæður bankinn gæti breytt vöxtunum.

Voru fjölmörg skuldabréf á árabilinu 2004 til 2010 með samskonar ákvæði og var fjallað um þau í dómi Hæstaréttar. Í kjölfar hans þurfti því bankinn að lækka vextina á þeim lánum sem ekki er búið að greiða upp sem og að endurgreiða fólki ofgreidda vexti vegna lánanna.