Íbúðalánasjóður auglýsti í dag eftir umsóknum frá fjármálafyrirtækjum um lán til tímabundinnar endurfjármögnunar á íbúðalánum sem veitt hafa verið gegn veði í íbúðarhúsnæði. Er það í samræmi við reglugerð þá sem félags- og tryggingaráðherra undirritaði í liðinni viku og miðar að því að tryggja öryggi og framboð lána á íbúðarlánamarkaði og eðlilega verðmyndun á íbúðamarkaði.

Hvert fyrirtæki getur aðeins sent inn eina umsókn en hver umsækjandi á rétt á 1,5 milljörðum króna að lágmarki. Heimilt er að lána að hámarki 30 milljarða króna. Íbúðalánasjóður afhendir íbúðabréf til þriggja mánaða gegn skuldabréfi með tryggingu í undirliggjandi fasteignaveðbréfum.

Félögin hafa hálfs mánaða frest til að senda inn umsóknir, eða til 6. ágúst, og sjóðurinn áskilur sér vikufrest til að svara umsóknum.