*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Innlent 12. apríl 2017 10:33

Eiga stóran hlut í Arnarlaxi

Um 20 þúsund laxar sluppu úr sjókví Scottish Sea Farm, sem er í eigu norska laxeldisrisans SalMar sem á stóran hlut í Arnarlaxi.

Trausti Hafliðason
Bátur við sjókví Arnarlax í Arnarfirði.
Haraldur Guðjónsson

Alls sluppu um 20 þúsund eldislaxar úr sjókvíum Scottish Sea Farm við eyjuna Mull í Skotlandi í lok mars. Þetta kemur fram í skoska blaðinu Daily Record.

Í skoska blaðinu segir að þetta sé eitt mesta umhverfisslys í sögu laxeldis í Skotlandi og það næst mesta síðan 30 þúsund laxar sluppu úr kvíum við eyjuna Lewis and Harris í maí í fyrra.

Skoska blaðið segir grun leika á því að selir hafi gert gat á kvíarnar með fyrrgreindum afleiðingum en það hefur ekki fengið staðfest því forsvarsmenn Scottish Sea Farm svöruðu ekki fyrirspurnum blaðsins.

Í gær var ekki að finna neinar upplýsingar um slysið á vefsíðu Scottish Sea Farm. Á síðunni er aftur á móti sérstaklega tiltekið að fyrirtækið hafi yfir fjögurra áratuga reynslu af laxeldi og fylgi ströngustu stöðlum í laxeldisiðnaðinum.

SalMar á stóran hlut í Arnarlaxi

Scottish Sea Farm er í eigu norska félagsins Norskott Havbruk AS. Norski laxeldisrisinn SalMar ASA á 50% hluti í Norskott Havbruk og Lerøy Seafood Group á 50%.

SalMar tengist íslensku laxeldi mjög náið því fyrirtækið á stóran hlut í Arnarlaxi á Vestfjörðum. Norska fyrirtækið er, ásamt feðgunum Matthíasi Garðarssyni og Kristian Matthíassyni, kjölfestufjárfestir í Arnarlaxi.

Í uppgjöri SalMar fyrir fjórða ársfjórðung 2016 kemur fram fyrirtækið eigi samtals 34% hlut í Arnarlaxi í gegnum félagið SalMus og staðfestir Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax, þetta í samtali við Viðskiptablaðið.

Í uppgjörinu kemur ennfremur fram að á öðrum ársfjórðungi í fyrra hafi SalMar veitt SalMus og öðrum eigendum Arnarlax lán að fjárhæð 242 milljónir norskra króna vegna hlutafjáraukningar. Í íslenskum krónum hefur lánið numið um 3,3 milljörðum. Þetta lán er veitt á svipuðum tíma og Fjarðalax sameinaðist Arnarlaxi en það gerðist í maí í fyrra.

Á hluthafafundi í júní í fyrra voru tveir nýir menn kjörnir í stjórn Arnarlax. Einar Örn Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Fjarðalax, tók sæti í stjórninni. Þá tók Norðmaðurinn Leif Inge Nordhammer einnig sæti í stjórninni. Leif Inge hefur um árabil verið enn áhrifamesti maður í laxeldi í heiminum. Þar til í maí í fyrra gegndi hann stöðu stjórnarformanns í SalMar. Samtals var hann stjórnarformaður þess fyrirtækis í 17 ár.

Förum eftir lögum og reglum

Þar sem SalMar á stóran hlut í skoska félaginu og Arnarlaxi vaknar upp sú spurning hvort fyrirtækin tvö séu að nota samskonar búnað í laxeldi. Víkingur segist ekki vitað það.

„Þetta er bara félag sem á í þessu skoska félagi og okkar félagi," segir hann. „Ég geri mér ekki grein fyrir því hvort við séum að nota sama búnað. Við förum eftir lögum og reglum sem gilda á Íslandi en þær byggja á norskum stöðlum. Við viljum auðvitað alls ekki að fiskurinn sleppi út — það er aðalatriðið. Í raun er ekkert meira um það að segja."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.