*

mánudagur, 1. mars 2021
Innlent 27. janúar 2018 12:01

Eiga þriðjung allra fjármuna

Í kringum árið 2060 gæti helmingur allra eigna á Íslandi verið í eigu lífeyrissjóðanna ef umsvif þeirra hér á landi haldast óbreytt.

Snorri Páll Gunnarsson
Dulinn kostnaður fjármagnshaftanna er meðal annars stóraukin umsvif lífeyrissjóðanna í íslensku hagkerfi.

Íslensku lífeyrissjóðirnir eru umsvifamiklir í íslensku efnahagslífi. Þeir eiga þriðjung fjármuna á Íslandi og meirihluta skráðra innlendra verðbréfa. Hætta er á því að umsvif sjóðanna hafi neikvæð áhrif í hagkerfinu. Vaxtarskeiði þeirra er þó hvergi nærri lokið.

Þetta kemur fram í skýrslu starfshóps um hlutverk lífeyrissjóða í uppbyggingu atvinnulífsins, sem kynnt var í vikunni. Skýrslunni fylgdi greinargerð frá Hagfræðistofnun um efnahagsleg umsvif lífeyrissjóðanna og álitsgerð frá Landslögum um samkeppnislegar áhættur sem felast í víðtæku eignarhaldi lífeyrissjóða í atvinnulífinu. 

Stórir fiskar í lítilli tjörn

Á síðustu tuttugu árum hafa lífeyrissjóðirnir tífaldast að stærð. Í árslok 2016 voru starfandi 25 lífeyrissjóðir hér á landi með heildareignir upp á 3.534 milljarða króna, sem jafngildir um 144% af vergri landsframleiðslu. Eignir sjóðanna nálgast nú fjögur þúsund milljarða króna. Þrír stærstu sjóðirnir – Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Lífeyrissjóður verslunarmanna (LIVE) og Gildi lífeyrissjóður – eiga um helming þeirra eigna.

Eðli málsins samkvæmt hafa umsvif lífeyrissjóðanna aukist verulega undanfarin ár, sérstaklega eftir fjármálakreppuna árið 2008. Sjóðirnir áttu þriðjung allra fjármuna á Íslandi árið 2016. Eignarhlutur þeirra í öllum fyrirtækjum landsins er áætlaður 15-20% að meðaltali.

Tvö af hverjum þremur verðbréfum í eigu lífeyrissjóða

Lífeyrissjóðirnir eru umsvifamiklir á íslenskum verðbréfamarkaði og eiga yfir 60% allra skráðra verðbréfa hér á landi. Innlend skuldabréf eru stærsti eignaflokkur sjóðanna. Árið 2006 áttu lífeyrissjóðirnir rúmlega 41% allra markaðsskuldabréfa og víxla á Íslandi, en í lok nóvember síðastlið­ ins var hlutfallið rúmlega 73%. Af þeirri eign vega íbúðabréf þyngst og eiga lífeyrissjóðirnir yfir 80% af útgefnum íbúðabréfum.

Á hlutabréfamarkaði hefur eignarhlutur lífeyrissjóðanna aukist úr 6% í 43% á sama tímabili, en þar er ekki tekið tillit til þess að lífeyrissjóð­ir eiga einnig óbeinan eignarhlut í gegnum verðbréfasjóði.

Til marks um umsvif lífeyrissjóðanna á innlendum verðbréfamarkaði eiga lífeyrissjóðirnir allt frá fjórðung upp í rúmlega helming af hlutabréfum skráðra hlutafélaga. Að meðaltali eiga sjóðirnir helming í hverju félagi á markaði og eiga þrír stærstu sjóðirnir að meðaltali fjórðung. Ljóst er að lífeyrissjóðirnir eiga stóra eignarhluti í samkeppnisfyrirtækjum. Til dæmis eiga sjóðirnir yfir 50% eign í fjarskiptafélögunum, 45% í fasteignafélögunum og 43% í tryggingafélögum.

Stóraukin umsvif lífeyrissjóð­anna á innlendum verðbréfamarkaði eru rakin til þess að fjárfestingarkostum til að ávaxta iðgjöldum sjóðfélaga og launagreiðenda á Íslandi snarfækkaði í kjölfar verð­ falls á hlutabréfamarkaði árið 2008 og setningar laga um gjaldeyrishöft. Höftin voru við lýði frá lokum árs 2008 og fram á vormánuði 2017 og komu í veg fyrir erlendar nýfjárfestingar.

Eiga 18% fasteignalána

Auk þess eiga lífeyrissjóðirnir verulegar eignir sem eru ekki skráðar í Kauphöll, svo sem hlutabréf í óskráðum fyrirtækjum, en einnig fasteignaveðlán til sjóð­félaga.

Á árunum 2009 til 2013 lánuðu lífeyrissjóðirnir að meðaltali tæplega 9 milljarða króna á ári til sjóðfélaga. Á árinu 2016 var fjárhæð veittra lána 89 milljarðar króna og á fyrstu ellefu mánuð­ um síðasta árs lánuðu sjóðirnir samtals 132 milljarða. Markaðshlutdeild lífeyrissjóða í fasteignalánum er um 18%. Auk þess eru sjóðirnir helstu kaupendur á skuldabréfum Íbúðalánasjóðs og stórir kaupendur að sértryggðum skuldabréfum bankanna.

Hafa ekki tekið út allan vöxtinn

Íslenskir lífeyrissjóðir eiga eftir að stækka hratt á komandi árum, að því er kemur fram í skýrslunni. Miðað við 3,5% raunávöxtun til langs tíma – sem er bæði ávöxtunarviðmið sjóðanna og ágæt nálgun á sögulega ávöxtun – munu sjóðirnir vaxa hraðar en hagkerfið. Ef umsvif lífeyrissjóð­anna hér á landi haldast óbreytt næstu 50 árin munu heildareignir þeirra nema um 240% af landsframleiðslu í kringum árið 2060. Um helmingur allra eigna á Íslandi verður þá í eigu lífeyrissjóðanna.

Á móti kemur er líklegt að lífeyrissjóðirnir muni ávaxta stærri hluta af eignum sínum utan íslenska hagkerfisins þegar fram líða stundir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.