Bandarískir fjárfestingarsjóðir sem hófu að festa kaup á íslenskum hlutabréfum í lok árs 2015, eru meðal stærstu hluthafa í meira en helmingi þeirra félaga sem eru skráð í Kauphöllinni. Flestir sjóðirnir eiga það sameiginlegt að vera í stýringu eignastýringarfyrirtækisins Eaton Vance Management, eiga í heildina litið eignarhluti í íslenskum félögum að andvirði tuttugu milljarða króna, eða sem jafngildir tveimur prósentum af heildarmarkaðsvirði allra félaga sem skráð eru á markað. Markaðurinn, fylgirit Fréttablaðsins , gerir þessu skilmerkilega grein.

Samkvæmt viðmælendum Markaðarins eru miklar líkur á því að erlendir fjárfestar muni á næstu mánuðum horfa í enn meiri mæli á íslenska hlutabréfamarkaðinn í kjölfar þess að búið er að afnema nánast að fullu höft á fjármagnsviðskipti frá landinu.

Tveir sjóðir langsamlega umsvifamestir

Tveir sjóðir í stýringu Eaton Vance, þ.e. Global Macro Portfolio og Global Macro Absolute Return Advantage, hafa allt frá árinu 2015 verið langsamlega umsvifamestir af erlendum aðilum á íslenskum hlutabréfamarkaði. Sjóðirnir tveir eru meðal stærstu hluthafa í átta félögum í Kauphöll Nasdaq Iceland og nemur samanlagt markaðsvirði þess eignarhlutar um tíu milljörðum króna. Einnig hafa sjóðirnir staðið á kaupum á öðrum fyrirtækjum í Kauphöllinni á síðustu mánuðum og misserum, að því er segir í frétt Markaðarins. Hægt er að áætla að sjóðir Eaton Vance eigi því samtals hátt í tvö prósent af heildarhlutafé á hlutabréfamarkaði.