Ríkissjóður Grikklands á ekki fyrir launum opinberra starfsmanna og þarf að fá lánaða 2 milljarða evra frá grískum lífeyrissjóðum og svæðisbundnum stjórnvöldum til að eiga fyrir launagreiðslum í lok þessa mánaðar. Þetta gerir það að verkum að ólíklegt er að ríkið muni geta greitt 950 milljón evra afborgun af láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í næsta mánuði.

Reuters hefur þetta eftir háttsettum embættismönnum í gríska fjármálaráðuneytinu. Ráðuneytið sjálft hafnar þessu hins vegar í tilkynningu. Undanfarið hafa vaxandi áhyggjur af skuldastöðu Grikklands vakið ugg meðal evrópskra fjárfesta, eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um .

Síðustu mánuði hefur gríska ríkið að verulegu leyti fjármagnað rekstur sinn með því að fá lánað frá opinberum aðilum. Gríska ríkið hefur þannig fengið lánað frá stofnunum á borð við neðanjarðarlestakerfið í Aþenu og vinnumálastofnun Grikklands. Þá hefur ríkið tekið lán úr fjármálastöðugleikasjóði og úr sjóði sem heldur utan um styrki Evrópusambandsins til grískra bænda.

Mikið af þessum lánveitingum hafa verið í formi endurhverfra viðskipta (e. repurchase agreements) sem felast í því að opinberar stofnanir og sjóðir lána ríkissjóðnum sjálfum lausafé til skamms tíma. Möguleikar gríska ríkisins á svona fjármögnun eru hins vegar að verða af skornum skammti. Ríkissjóðurinn á ekki von á tekjuinnstreymi fyrr en í upphafi næsta mánaðar þegar von er á um 4 milljörðum evra af skatttekjum.