Morten Lund, aðaleigandi Nyhedsavisen, greindi starfsmönnum blaðsins frá því á skrifstofunni í Kaupmannahöfn í gær að útgáfu þess hefði verið hætt. Hann kvaðst axla fulla ábyrgð á örlögum blaðsins. Hann sagðist hafa verið fullbjartsýnn og sagði allt vera sér að kenna. Lund sagði að þrátt fyrir að fjárframlög frá bandaríska fjárfestingarsjóðnum Draper Fisher Juvertsson kæmu til, væri ekki nóg fé til að halda útgáfunni áfram út þetta ár. Morten Lund hafði fyrir helgi lýst því yfir að hann íhugaði að taka yfir keppinautana 24timer og metroXpress, en nú hafa þær skýjaborgir gufað upp.

Þórdís Sigurðardóttir, forstjóri Stoða Invest, segir ákvörðunina um að hætta útgáfu blaðsins hafa verið tekna af Morten Lund: „Við erum verulega vonsvikin með þessi málalok. Hann hafði gert samning við okkur um að borga inn ákveðnar fjárhæðir sem skiluðu sér ekki. Við eigum veð í öllum eignum Mortens Lund, þannig að við bindum vonir við að fá eitthvað af peningum til baka í gegnum það. Við vorum náttúrlega komin niður í 15% hlut í blaðinu, en við vonuðumst til að þetta myndi enda eilítið öðruvísi. Ekki öll ævintýri enda vel.“

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .