Hlutafé í Þórsmörk, móðurfélagi Morgunblaðsins, hefur verið hækkað um tæpar 100 milljónir króna. Greitt var fyrir hækkunina að fullu með peningum samkvæmt tilkynningu til fyrirtækjaskráar sem barst þangað 18. mars síðastliðinn. Ekki kemur fram hverjir lögðu Þórsmörk til hið nýja hlutafé.

Hluthafahópurinn sem keypti Morgunblaðið í febrúar 2009 setti 651 milljón króna inn í Þórsmörk á því ári. Hluti þeirrar fjárhæðar var síðan notaður til að kaupa Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins. Sú eign var metin á 300 milljónir króna í lok árs 2009. Á þeim tíma átti félagið einnig 214 milljónir króna í handbæru fé og 152 milljóna króna kröfu á tengdan aðila. Félagið skuldaði ekkert. Það þýðir að 366 milljónir voru til taks inni í Þórsmörk í árslok 2009. Hlutafé félagsins hefur nú verið hækkað úr 651 milljón króna í 747 milljónir króna. Árvakur tapaði 667 milljónum króna árið 2009. Félagið hefur ekki skilað ársreikningi vegna síðasta árs.