Félagið Frontur ehf., sem á og rekur heimasíðuna bland.is, var rekið með 13,5 milljóna króna tapi á árinu 2011 samkvæmt ársreikningi fyrirtækisins. Bland. is er sjöunda vinsælasta heimasíðan hér á landi samkvæmt samræmdri vefmælingu Modernus.is.

Í skýrslu stjórnar kemur fram að á rekstrarárinu hafi kröfur á félag sem Frontur átti í Danmörku upp á rúmar 12 milljónir verið afskrifaðar og allt hlutafé í félaginu upp á 1,5 milljónir var einnig afskrifað. Félagið fór í gjaldþrot eftir misheppnaða markaðssetningu á heimasíðunni babyverden.dk.

Eigendur Fronts greiddu sér út 4 milljónir í arð á árinu 2011 en árið 2010 hafði félagið skilað 2,6 milljóna króna hagnaði. Eigið fé félagsins í lok árs 2011 nam um 3,7 milljónum króna. Eigandi Fronts er Ingi Gauti Ragnarsson og félagið Kolbeinn Kafteinn ehf.