SaltPay, eigandi Borgunar, sótti sér 150 milljónir dollara af nýju hlutafé, um 19 milljarða króna, með hlutafjáraukningu í Bandaríkjunum í nóvember. 29 aðilar tóku þátt í hlutafjáraukningunni en stjórnendur SaltPay vilja ekki gefa upp hverjir stóðu að hlutafjáraukningunni. Félagið hefur verið stórhuga í fjárfestingum víða um Evrópu síðustu vikur, meðal annars í Tékklandi, Bretlandi og Portúgal.

Á vef félagsins er auglýst eftir tæplega 40 ólíkum stöðugildi, flest í London eða Portúgal, en einnig í Slóveníu, Ungverjalandi, Tékklandi og á Íslandi. Í svari SaltPay við fyrirspurn Viðskiptablaðsins kemur fram að starfsmenn samstæðunnar séu nú orðnir um 600. Félagið hafi ráðið 30 starfsmenn í janúar og búist er við að ráða annað eins í febrúar.

Sjá einnig: Auðmenn: Eigendur kortafyrirtækjanna

Borgun stofnaði jafnframt dótturfélag á Bretlandi og lagði í það nýtt hlutafé upp á ríflega tvo milljarða íslenska króna í desember. SaltPay keypti einnig stóran hlut í tékkneska fjártæknifyrirtækinu Storyous rétt fyrir áramót, sem sérhæfir sig í lausnum tengdum afgreiðslukössum og greiðslukerfum verslana.

Tékkneskir fjölmiðlar töldu sig hafa heimildir fyrir því að SaltPay myndi eignast meirihluta í félaginu og kaupverðið hlypi á því sem samsvarar milljörðum íslenskra króna.

Sjá einnig: Borgun verði leiðandi í fjártækni

Þá hefur SaltPay einnig keypt portúgalska fjártæknifyrirtækið Pagaqui. Það vakti nokkra athygli í Portúgal í lok janúar þegar félagið, í samstafi við Borgun, tók þátt í útboði portúgalskra stjórnvalda um umsjón með rafrænu endurgreiðslukerfi á virðisaukaskatti í Portúgal. Auk þess leiddi SaltPay nýlega 190 milljóna króna fjármögnun í íslenska sprotafyrirtækinu Noona .

SaltPay stefnir jafnframt að því að færa skrifstofur félagsins úr Ármúlanum, þar sem Borgun hefur verið til húsa undanfarin ár. Leit stendur yfir að húsnæði sem hentar betur undir starfsemina, þar sem starfsmenn geta verið nær hver öðrum, að því er fram kemur í svari SaltPay við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .