Gengi hlutabréfa leikjaframleiðandans King Digital Entertainment, sem m.a. bjó til Candy Crush, féll um 15% á fyrsta degi viðskipta eftir að hlutabréf felagsins voru skráð á markað. Þetta er þvert á væntingar. Þegar viðskipti hófust með bréfin í gær stóð gengi hlutabréfanna í  22,5 dölum á hlut. Þegar viðskiptum lauk hins vegar var það komið niður í 19,08 dali.

Fram kemur í umfjöllun breska ríkisútvarpsins ( BBC ) um hökt King á hlutabréfamarkaði að undir hatti fyrirtækisins eru 180 tölvu- og netleikir en fáir hafa slegið í gegn. Candy Crush er þeirra langvinsælastur en enginn annar leikur komst með tærnar þar sem Candy Crush var með hælana á smáforritamarkaðnum í fyrra. Hinir leikirnir eru Pet Rescue Saga og Farm Heros Saga en leikirnir þrír stóðu undir 95% af öllum tekjum King Digital Entertainment á fjórða ársfjórðungi í fyrra.