Guðni Rafn Eiríksson, eigandi Skakkaturns ehf., umboðsaðila Apple á Íslandi, fjárfesti í Skeljungi í gegnum félagið GE Capital ehf. í gær. Hann festi kaup á framvirkum samningum að tæplega 5% hlut í Skeljungi. Þetta kemur fram í flöggunartilkynningu .

GE Capital keypti 740 þúsund að nafnverði á tæplega 10,8 milljónir króna og gerði framvirkan samning fyrir 96,6 milljónir hluti í Skeljungi. Gera má ráð fyrir að hann greiði um 1,4 milljarða króna fyrir viðskiptin. Fram kemur að uppgjörsdagur framvirka samningsins sé 8. febrúar næstkomandi.

Um 2,8 milljarða króna viðskipti fóru fram í gærmorgun með 10% hlut á genginu 14,6 krónur á hlut í Skeljungi. Gildi lífeyrissjóður seldi um 8% hlut og Birta seldi tæplega 1,75%. Þá keypti bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic 5% hlut í Skeljungi en sjóðurinn hafði áður komið að skuldsettri yfirtöku fjárfestingafélagsins Strengs.

Sjá einnig: Gildi selur og Taconic kaupir í Skeljungi

GE Capital hagnaðist um 340 milljónir árið 2020. Eignir félagsins námu tæplega 1,3 milljörðum króna og eigið fé var um 1,2 milljarðar í árslok 2020.