Jarðboranir hf. hafa selt öll hlutabréf í dótturfélagi sínu Einingaverksmiðjunni ehf. Kaupandinn, THGI ehf., hefur greitt kaupverðið að fullu og yfirtekið reksturinn. THGI ehf. er í eigu Þorvaldar Gissurarsonar sem er forstjóri og eigandi verktakafyrirtækisins ÞG-Verktakar. ÞG-Verktakar er ört vaxandi verktakafyrirtæki með ársveltu hátt á fjórða milljarð króna. Hjá fyrirtækinu starfa um hundrað manns. Að sögn Þorvaldar eru engin áform uppi um samrekstur eða samruna félaganna heldur verða þau rekin sitt í hvoru lagi í framtíðinni. Aðspurður sagði Þorvaldur ekki hafa uppi nein áform um að breyta rekstri Einingaverksmiðjunnar frá því sem verið hefur.

Staða verkefna hjá Einingaverksmiðjunni var góð á fyrstu sex mánuðum ársins samkvæmt uppgjörsupplýsingum frá Jarðborunum og var framleiðsla og sala í ágætu jafnvægi. Rekstrartekjur Einingaverksmiðjunnar fyrstu sex mánuði ársins voru um 260 milljónir króna og jókst velta félagsins um 30% miðað við sama tíma á liðnu ári. Með sölunni innleystu Jarðboranir 100 milljóna kr. söluhagnað.