Bresk samkeppnisyfirvöld vilja að BAA, eigandi flugstöðvanna á Heathrow, Gatwick og Stansted, selji frá sér tvær þeirra, en um flugvellina þrjá fer 90% af flugumferð til og frá Lundúnum.

BBA er í eigu spænska fasteignafélagsins Ferrovial og hefur sætt harðvítugri gagnrýni fyrir að versnandi þjónustu og seinkanir á flugi, sérstaklega á Heathrow.

Skortur á samkeppni veldur vanda

Samkeppnisyfirvöld í Bretlandi telja að mörg þeirra vandamála sem hrjáð hafa flugvellina megi rekja til skorts á samkeppni og hafi BAA daufheyrst við gagnrýni og ekki haft frumkvæði að úrbótum. Telja yfirvöld að fjárfestingar BAA í flugstöðvunum standist ekki þær kröfur sem gerðar eru til að þjóna þörfum farþeganna sem um þær fara.

BAA eiga og reka sjö flugstöðvar í Bretlandi. Hafi skortur á fjárfestingum í flugstöðvunum leitt til lakari og minni þjónustu fyrir bæði farþega og flugrekstraraðila sem fljúga til og frá þessum völlum.

Samkeppnisyfirvöld eru ennfremur mótfallin því að BAA eigi og reki bæði flugstöðvarnar í Edinborg og Glasgow.

Þvingunarsala fyrst möguleg á næsta ári

Niðurstöður samkeppnisyfirvalda varðandi málið eru til bráðabirgða og ekki er hægt að þvinga fram sölu á flugvellinum fyrr en lokaskýrsla liggur fyrir á næsta ári.

Samkvæmt BBC hafna forsvarsmenn BAA því alfarið að selja flaggskip sitt, Heathrow Airport.