Sænski milljarðamæringurinn Stefan Persson, eigandi H&M verslunarkeðjunnar, áætlar nú að kaupa eitt stykki breskt þorp eða um 2.000 ekrur af landssvæði.

Fram kemur á vef breska blaðsins The Daily Telegrap að Persson hyggist kaupa landssvæðið Linkenholt sem liggur rétt utan við Andever í Hampshire fyrir 25 milljónir Sterlingspunda. Fyrir á Persson 8.500 ekra svæði í Wiltshire héraði sem metið er á 9 milljón pund.

Á meðal eigna sem fylgja landssvæðinu eru gamaldags kastali, 1.500 ekrur af gróðurlendi til ræktunar, 425 ekra skóglendi, krikket völlur og 21 lóð sem að hluta til er þegar búið að byggja hús og/eða sveitasetur á.

Auðæfi Persson er talin nema um 11,4 milljörðum punda þannig að hann ætti að hafa efni á landssvæðinu. Linkenholt er í eigu velferðarsjóðs sem og hefur verið það síðan árið 1970 eftir að viðskiptajöfurinn Herbert Blagrave, sem þá var eigandi landssvæðisins, lést en Bagrave var barnslaus og því erfði sjóðurinn landið.

Þó gæti farið svo að Persson þurfi að keppa um svæðið því Telegraph greinir frá því að annar sænskur auðjöfur, Claas Bourghardt hafi einnig í hyggju að kaupa landið en hann hefur í mörg ár leigt kastalann sem þar er til einkanota.

Telegraph segir að um sé að ræða land þekkt fyrir fallegan gróður en landið hefur verið til sölu frá því í mars á þessu ári.

Eins og fyrr segir er talið að Persson hafi boðið um 25 milljónir punda í landið en hér gæti þó verið um ágætis fjárfestingu að ræða því leiga fyrir landskika undir sveitasetur getur verið allt frá 500 pundum á mánuði upp í 3.500 pund fyrir stærri skika.