*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Innlent 14. apríl 2011 14:08

British Seafood til rannsóknar í Bretlandi

British Seafood er enn til rannsóknar hjá SFO í Bretlandi. Fyrrum eigandi þess er verðandi eigandi Iceland Seafood International.

Þórður Snær Júlíusson
Mark Holyoake fær hlutabréf in í ISI afhent á næstu vikum.

British Seafood er til rannsóknar hjá efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar, SFO. Líkt og greint er frá í Viðskiptablaðinu í dag mun félag í eigu Marks Holyoakes eignast allt hlutafé í Iceland Seafood á næstu vikum. Hann átti áður British Seafood. Félagið samdi um kaup á hlut 73,1% hlut Kjalars ehf., félags Ólafs Ólafssonar, í ISI í janúar í fyrra en hefur ekki fengið hlutabréfin afhent. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að samhliða kaupunum hafi verið samið um að minni hluthafar, félag í eigu Benedikts Sveinssonar, fyrrum framkvæmdastjóra ISI, og Bjarni Benediktsson, framkvæmdastjóri Iceland Seafood á Íslandi, myndu selja Holyoake hluti sína í fyrirtækinu.

Nokkrum vikum eftir að samkomulagið var gert fór British Seafood, sem var í eigu Holyoake, í þrot ásamt fjölda dótturfélaga þess. Holyoake var einnig gefið að sök að hafa svikið út umtalsvert fé með sýndarviðskiptum í gegnum félögin. Serious Fraud Office (SFO) hóf í kjölfarið rannsókn á British Seafood. Sú rannsókn stendur enn yfir samkvæmt upplýsingum frá SFO. Auk þess höfðuðu ýmsir kröfuhafar mál á hendur þeim. Í kjölfarið voru eignir upp á 210 milljónir punda, 38,4 milljarða króna, frystar á meðan rannsókn stóð yfir.

Frystingin kom í veg fyrir að Holyoake gæti staðið við þær greiðslur sem hann hafði skuldbundið sig um að inna af hendi. Því voru kaup hans á ISI í uppnámi.

Samdi við kröfuhafa

Í lok árs 2010 náði Holyoake hins vegar samningum við kröfuhafa sína sem féllu frá málshöfðunum á hendur honum. Í kjölfarið var frystingu á eignum hans aflétt. Eftir að Holyoake fékk aftur aðgang að bankareikningum sínum hefur hann getað greitt núverandi eigendum ISI hluta umsamins kaupverðs. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að Kjalar hafi þegar fengið 75% greitt en minni hluthafarnir tveir um 50%. Stefnt er að því að ljúka málinu innan fjögurra vikna. 

Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.

Stikkorð: Iceland Seafood