Danska verktakafyrirtækið Pihl og Søn hefur óskað eftir gjaldþrotaskiptum. Ístak er á meðal dótturfyrirtækja Pihl og Søn. Haft var eftir forsvarsmönnum Ístaks í kvöldfréttum RÚV að reynt verði að draga úr áhrifum gjaldþrotaskiptanna á fyrirtækið. Starfsmenn fyrirtækisins eru á þriðja þúsund um allan heim.

Pihl og Søn hefur verið umsvifamikið í Danmörku. Það vann meðal annars við Stórabeltisbrúnna, óperuhúsið í Kaupmannahöfn og við endurbætur á hótelinu D'Angleterre.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í maí var Halldóri P. Ragnarssyni, forstjóra Pihl og Søn sagt upp í kjölfar afar slaks uppgjörs í fyrra en þá tapaði verktakafyrirtækið 473 milljónum danskra króna, jafnvirði um 10 milljarða íslenskra króna.