Eigandi hundstíkur sem gekkst undir aðgerð vegna kviðslits, sem átti eftir að verða umfangsmeiri og kostnaðarsamari en gert var ráð fyrir, átti ekki rétt á bótum úr gæludýratryggingu tíkunnar samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndar í vátryggingamálum.

Atvik málsins voru á þann veg að í byrjun árs 2019 gekkst tík eigandans undir aðgerð hjá dýralækni vegna kviðslits „á hættulegum stað“. Samhliða kviðslitsaðgerðinni var ákveðið að framkvæma ófjósemisaðgerð. Meðan á aðgerðunum stóð kom í ljós að tíkin væri blæðari. Ekki var vitað áður um það ástand hennar og var sjúkdómurinn ekki þekktur í ætt tíkunnar. Varð þetta til þess að tiltölulega einföld aðgerð varð mun tímafrekari og kostnaðarsamari en lagt var upp með.

Í kjölfar þessa gerði eigandi tíkunnar kröfu um bætur úr gæludýratryggingu. Tryggingafélag eigandans hafnaði bótaskyldu á grundvelli þess annars vegar að tíkin væri ættgengur blæðari og hins vegar þess að um ófrjósemisaðgerð hafi verið að ræða.

Eigandinn sætti sig ekki við þá niðurstöðu og skaut niðurstöðunni til úrskurðarnefndar vátryggingamála. Gerði eigandinn kröfu um að tryggingafélagið tæki þátt í viðbótarkostnaði vegna aðgerðarinnar, en endanlegur kostnaður vegna hennar var 318.113 kr., eða ríflega 200.000 kr. meiri en áætlað var.

Ósannað að aðgerðin væri tilkomin vegna kviðslits

Í bréfi tryggingafélagsins til nefndarinnar er vísað til þess að í skilmálum viðeigandi vátryggingar komi fram að vátryggingin taki ekki til kostnaðar vegna geldinga eða ófrjósemisaðgerða. „Enn fremur komi þar fram að ekki sé bættur kostnaður vegna meðfæddra kvilla. Í máli þessu liggi fyrir að A [tíkin] hafi gengist undir ófrjósemisaðgerð, og komi hvergi fram að sú aðgerð hafi verið framkvæmd samhliða kviðslitsaðgerð. Staðhæfingar M [eigandans] um að A [tíkin] hafi þurft að gangast undir kviðslitsaðgerð séu ekki studdar neinum gögnum, og komi skýrt fram í vottorði dýralæknis að framkvæma hafi átt ófrjósemisaðgerð. Kostnaður við slíka aðgerð og afleiddur kostnaður vegna hennar fáist ekki bættur úr vátryggingunni. Þess utan sé A [tíkin] meðfæddur blæðari svo kostnaður sem kæmi til vegna þess ástands A [tíkurnar] félli ekki undir vátrygginguna. Er bótaskyldu því hafnað“ segir í úrskurði nefndarinnar.

„Í 3. gr. 2. kafla skilmála umræddrar vátryggingar segir m.a. í gr. 3.4 að ekki sé bættur sjúkrakostnaður vegna geldinga eða ófrjósemisaðgerða. Þá segir m.a. í gr. 3.2 að ekki sé bættur kostnaður vegna arfgengra og/eða meðfæddra kvilla. Fyrir nefndinni liggur heilbrigðisvottorð dýralæknis, gefið út hinn 4. janúar 2019. Þar kemur fram að A [tíkin] hafi komið í ófrjósemisaðgerð, en ekki er minnst á kviðslit eða aðgerð vegna þess. Verður því að taka undir það með V [tryggingafélagi] að það sé alls ósannað að umrædd aðgerð hafi fyrst og fremst verið vegna kviðslits. Þessu utan verður að telja yfirgnæfandi líkur á því að blóðstorkusjúkdómur A [tíkurnar] hafi verið meðfæddur, en ekki síðar til kominn. Þar sem ekki liggur annað fyrir en að um fylgikvilla í ófrjósemisaðgerð vegna meðfædds ástands hafi verið að ræða er óhjákvæmilegt að hafna kröfu M [eigandans],“ segir í áliti nefndarinnar.

Varð niðurstaða nefndarinnar því sú að eigandi tíkurnar ætti ekki rétt á bótum úr gæludýratryggingunni.