Lögmaður Leikskólans 101 er ásamt eiganda hans að skoða það að fara í skaðabótamál við Reykjavíkurborg vegna lokunar leikskólans. Honum var lokað í ágúst í fyrra eftir að greint var frá því að til rannsóknar væri meint harðræði starfsmanna gegn börnum. Sumarstarfsmenn sögðu myndbrot sem þeir tóku hafa átt að sýna fram á að börn hafi verið beitt ofbeldi. Lögregla rannsakaði málið. Seint í mars síðastliðnum sendi hún foreldrum barna í leikskólanum bréf sem í stóð að ekkert hafi komið út úr rannsókninni og hafi málið verið fellt niður.

„Við vildum bíða eftir niðurstöðum lögreglunnar og erum að meta þetta núna,“ segir lögmaðurinn Þyrí Steingrímsdóttir. Hún segir málið hafa farið illa með rekstur leikskólans. Rekstrargrundvellinum hafi verið kippt undan skólanum og hann farið í þrot. Á þeim forsendum segir Þyrí tjónið augljóst.

Það sem eftir stendur af málinu er að talið er að eigandi leikskólans hafi brotið gegn starfsleyfi með því að hafa of mörg börn.