*

miðvikudagur, 29. janúar 2020
Innlent 21. september 2012 19:05

Eigandi Leonard skuldaði 230 milljónir

Engar eignir fundust í þrotabúi Sævars Jónssonar. Hann er talinn hafa fært stóran hluta þeirra yfir á eiginkonuna eftir hrunið.

Jón Aðalsteinn Bergsvein

Engar eignir eru til upp í rúmlega 232 milljóna króna kröfur í persónulegt gjaldþrot Sævars Jónssonar, sem í gegnum árin hefur verið kenndur við skartgripa- og úraverslunina Leonard sem hann stofnaði sumarið 1991. Sævar, sem á árum áður var þekktur fyrir frammistöðu sína með knattspyrnuliði Vals, var úrskurðaður gjaldþrota í febrúar árið 2010.

Helsti kröfuhafi í þrotabú Sævars er Pillar Securitisation með tæplega 100 milljóna króna kröfu. Pillar Securitisation er þrotabú Kaupþings í Lúxemborg eða svokallaður „gamli banki“. Félagið tók m.a. hluta af lánasafni Kaupþings í Lúxemborg yfir sem litlar eða engar líkur voru á að taldar gætu innheimst.

Þær kröfur sem út af standa eru frá Arion banka, Landsbankanum, Íslandsbanka, Byr og Spron. 

Grétar Dór Sigurðsson, skiptastjóri þrotabús Sævars, hefur boðað til skiptafundar á föstudag í næstu viku. 

Færði eignir yfir á eiginkonuna

Gjaldþrot Sævars er fjarri því það eina sem honum er tengt. Skartgripa- og úraverslunin Leonard var tekið til gjaldþrotaskipta sumarið 2010. Skuldir félagsins námu 312 milljónum króna og fékkst ekkert upp í þær kröfur.

Fjallað hefur nokkuð um málefni Sævars og Leonard en hann færði rekstur skartgripaverslunarinnar ásamt öðrum eignum sínum, s.s. einbýlishúsi og bíl, yfir á nafn eiginkonu sinnar um það leyti sem hann var sjálfur úrskurðaður gjaldþrota. Félagið sem heldur utan um upphaflegt þrotabú Leonard heitir 1899 ehf.

Talsvert hefur verið ritað um lífsstíl og umsvif Sævars í gegnum tíðina eftir að hann var úrskurðaður gjaldþrota, svo sem glæsilegt einbýlishús hans og konu hans í Garðabæ og tíu milljóna króna BMW-lúxusjeppa árgerð 2008 sem hann keypti í gegnum SP-fjármögnun. Eignarhald á bílnum færði hann sömuleiðis yfir á eiginkonu sína. 

Kennitölu Leonard hefur nokkrum sinnum verið breytt síðan þetta var. Félagið sem nú rekur skartgripa- og úraverslanirnar undir nafni Leonard heitir Ellur ehf. Það er í 100% eigu Helgu Daníelsdóttur, eiginkonu Sævars. Hann er sjálfur ekki skráður eigandi félagsins.

Stikkorð: Leonard Sævar Jónsson