Mike Ashley, eigandi breska úrvalsdeildarliðsins Newcastle, bera víurnar í hlut í bresku verslunina House of Fraser. Slitastjórn Landsbankans hefur farið með 35% hlut í versluninni. Baugur Group leiddi hóp fjárfesta við yfirtöku á verslunni fyrir sex árum og greiddi fyrir hana 351 milljón punda, jafnvirði 70 milljarða króna á gengi dagsins í dag. Þegar kröfuhafar Baugs gengu að veðum og félagið fór í þrot eignaðist þrotabú Landsbankans 33% hlut í House of Fraser.

Breskir fjölmiðlar greindu frá því í vor að hlutur slitastjórnar Landsbankans væri kominn í söluferli og væri hann metinn á allt að 100 milljónir punda, jafnvirði um 20 milljarða króna.

Mike Ashley er umsvifamikill í breskum smásölugeira. Hann stofnaði íþróttavöruverslunina Sports Direct og stýrir versluninni auk þess að eiga hlut í fleiri verslunum.

Í breska dagblaðinu Telegraph segir að Ashley hafi rætt við hluthafa House of Fraser um kaup á hlut þeirra í versluninni og myndun nýs fjárfestahóps. Ekki er tekið fram við hverja hann hefur rætt. Á hinn bóginn segir blaðið að erfitt geti verið fyrir Ashley að semja um kaup á einu né neinu þar sem allir hluthafar House of Fraser þurfa að samþykkja viðskiptin.

Mikil tengsl við Íslendinga

Mike Ashley, er talinn 15. auðugasti einstaklingurinn á Bretlandi, hefur talsverð tengsl við Íslendinga. Í fyrsta lagi voru þeir Jón Ásgeir Jóhannesson og Pálmi Haraldsson orðaðir við kaup á Newcastle á sínum tíma. Þá opnaði Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson, sonur Ingibjargar Pálmadóttur, konu Jóns Ásgeirs, verslun Sports Direct í Kópavogi í sumar. Þessu til viðbótar má bæta við að Ashley stendur jafnframt á bak við fréttavefinn Sportsdirectnews.com, sem fjölmiðlamaðurinn Óskar Hrafn Þorvaldsson vann við að koma á laggirnar í sumar.