Heildverslunin Egilsson, sem á og rekur ritfangaverslanir Office 1 og A4, hefur stefnt Útvarpi Sögu og krefur hana um 100 þúsund krónur. Í málinu er deilt um það hvort Útvarp Saga hafi borgað reikning með auglýsingum og hvort búið sé að borga kröfuna, með öðrum orðum er um það ágreiningur hvort greiðsluskylda er til staðar eða ekki og hvort hún hafi verið innt af hendi.

Lögheimtan og Modus sjá um innheimtuna fyrir Egilsson.

Ekki mun algengt að þetta lágar kröfur fari fyrir dóm og ekki útilokað að það leysist áður en til kastanna kemur. Mál Egilsson gegn Útvarpi Sögu er á dagskrá héraðsdóms Reykjavíkur á þriðjudag í næstu viku.

Segir kröfuna tilefnislausa

Pétur Gunnlaugsson
Pétur Gunnlaugsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Pétur Gunnlaugsson, maður Arnþrúðar Karlsdóttur útvarpsstjóra á Útvarpi Sögu, er lögmaður stöðvarinnar í málinu. Hann segist ekki muna hvernig krafa Egilsson hafi komið til en bendir á að hún sé tilefnislaus.

„Á sínum tíma var búið að ganga frá þessu. En svo kemur þetta upp aftur af einhverjum ástæðum. Við ætlum ekki að borga kröfu aftur sem búið er að fella niður. Ef einhver rukkar þig um nokkuð hundruð þúsund kall tekurðu þá upp tékkheftið? Ég geri það ekki. Þetta er tilefnislaus málssókn eins og gerist stundum,“ segir Pétur og bætir við að af þeim sökum taki hann til varna í málinu.