Hinn þýsk-pólski Waldemar Preussner er forstjóri, stofnandi, stjórnarformaður og eini eigandi þýska fyrirtækisins PCC, sem á 86% í kísilverksmiðjunni á Bakka við Húsavík. Preussner er meðal þeirra sem fjallað er um í úttekt Frjálsrar verslunar á 30 af umsvifamestu erlendu fjárfestunum hér á landi.

PCC er í dag starfrækt í átján löndum og með um 3.500 starfsmenn. Preussner tók þátt í að einkavæða þó nokkur áður ríkisrekin fyrirtæki í efna- og flutningaiðnaðinum, til að mynda félagið sem í dag kallast PCC.

Þrjú af þessum fyrirtækjum voru síðar skráð í kauphöll Varsjá í Póllandi. Samhliða umsvifum í Póllandi, Mið- og Austur-Evrópu eru félög tengd Preussner starfrækt í Bandaríkjunum, Asíu sem og á Íslandi. Árið 2009 hlaut hann pólsk-þýsku viðskiptaverðlaunin sem þá voru veitt í fyrsta sinn.

Til sautján ára aldurs bjó Preussner í Póllandi en fluttist síðan til Þýskalands þar sem hann lagði stund á nám í hagfræði. Við útskrift varð hann innkaupastjóri hjá efnafyrirtækinu Rütgers VTF AG, sem nú heitir Rütgers Germany GmbH. Þar bar hann ábyrgð á innkaupum á hráefnum í Mið- og Austur-Evrópu en hætti árið 1993 þegar hann stofnaði félag sem í dag gengur undir nafninu PCC. Kísilverksmiðja PCC við Bakka hefur ekki gengið sem skyldi.

Viljayfirlýsing um uppbyggingu á téðri verksmiðju var undirrituð árið 2011. Framkvæmdir hófust svo fjórum árum síðar, árið 2015, og var kísilverið síðan gangsett árið 2018. Síðan þá hafa bilanir einkennt rekstur kísilversins en kísilverð hefur einnig verið fremur lágt.

Vegna rekstrarerfiðleika hefur PCC meðal annars lagt nær sex milljarða króna í reksturinn til viðbótar upphaflegri fjárfestingu og íslenskir fjárfestar, til að mynda lífeyrissjóðir, hafa fært niður að mestu eða öllu leyti. Slökkt var á verksmiðjunni í sumar og öllum starfsmönnum var sagt upp. Óvíst er hvenær hún verður gangsett á ný.

Nánar má lesa um erlenda auðmenn á Íslandi í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa eintak af tímaritinu hér eða gerast áskrifandi hér .