*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 8. desember 2007 15:36

Eigandi Sport-Tækja sýknaður af kröfu vegna hlutafjárframlags

Ritstjórn

Héraðsdómur Suðurlands felldi fyrir helgi dóm varðandi kröfu Stólpavíkur ehf., sem m.a. hefur höndlað með salt, á hendur framkvæmdastjóra og aðaleiganda Sport-Tækja, en það flytur inn búnað og tæki fyrir íþróttahús og íþróttavelli, þeim síðarnefnda í vil.  Gerði stefnandinn kröfu um að stefndi greiddi honum skuld að upphæð 6 milljónir króna ásamt vöxtum frá október 2001, að frádreginni um 5,5 milljón króna innborgun sem inn var af hendi í júní 2005.

Málavextir eru þeir helstir að í október árið 2001 afhentu forsvarsmenn Stólpavíkur eiganda Sport-Tækja 6 milljónir króna sem hlutafjárframlag inn í félagið, en óskuðu þess síðan árið 2005 að fremur væri talið um persónulegt lán til eigandans væri að ræða en hlutafjárframlag. Var því breytt í skuldabréf að upphæð 6 milljónir í kjölfarið. Voru ástæður þessarar breytingar m.a. þær að hlutabréf í Sport-Tækjum höfðu fremur lækkað í verði en hækkað á umræddu tímabili. Meðal annars var deilt um hver lagði fjármunina fram og skorti á gögn um þau viðskipti.

Í niðurstöðu héraðsdóms segir m.a.: "Má telja með miklum ólíkindum að stefnandi hafi ekki gert ráðstafanir til þess að tryggja sér sönnun þess efnis að þrátt fyrir útgáfu skuldabréfsins væri skuld stefnda eftir það um fimm milljónir króna. Það stóð stefnanda næsta að tryggja sér slíka sönnun og verður hann að bera hallann af því að hafa látið það undir höfuð leggjast. Stefnandi hefur engin gögn lagt fram sem gefa til kynna að stefndi hafi skuldbundið sig til að bera þessi afföll eða greiða vexti einsog stefnandi hefur nú krafist. Að mati dómsins hefur stefnanda því á engan hátt tekist að sanna að framangreint uppgjör hafi ekki falið í sér endanlegt uppgjör milli aðila og verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnenda í málinu."