Eins og Viðskiptablaðið greindi frá síðastliðinn fimmtudag keypti Straumur fjárfestingarbanki 9,99% hlut af hollenska félaginu Manastur Holding B.V. og 9,54% hlut af breska félaginu Linley Limited í MP banka. Eignarhlutur Straums verður því samtals 19,53%, en kaupin bíða nú samþykkis frá Fjármálaeftirlitinu.

Í Viðskiptablaðinu þann 7. apríl 2011 var greint frá því hverjir eigendur Manastur Holding B.V. og Linley Limited væru. Eigandi Manastur B.V. er Joe Lewis, eigandi enska knattspyrnuliðsins Tottenham. Hann er í 308. sæti á lista Forbes yfir ríkustu einstaklinga heims. Eigur hans eru metnar á 4,2 milljarða breskra punda og er hann meðal annars stærsti einstaki eigandi Tavistock Group, sem á meira en 175 fyrirtæki í yfir 15 löndum.

David Rowland er einn eigenda Linley Limited. Rowland bauðst staða gjaldkera breska Íhaldsflokksins árið 2010, sem hann afþakkaði eftir að fjölmiðlar höfðu gert viðskiptahætti hans að umtalsefni. Hann keypti Kaupþing í Lúxemborg eftir að hann féll og nefndi hann Banque Havilland.