*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Erlent 15. febrúar 2021 10:42

Eigandi Viaplay nær í 67 milljarða

Nordic Entertainment Group er í vaxtarhug og ætlar að meira en þrefalda fjölda áskrifenda fram til ársins 2025.

Ritstjórn
Anders Jensen, forstjóri Nordic Entertainment Group.
Aðsend mynd

Nordic Entertainment Group, sem rekur streymisveituna Viaplay, lauk fyrir helgi 4,35 milljarða sænskra króna hlutafjárútboði, jafnvirði um 67 milljarða íslenskra króna. Töluverð umframeftirspurn var í útboðinu. Félagið segir markmið hlutafjáraukningarinnar vera að styðja við frekari vöxt félagsins en það hefur verið í mikilli sókn með Viaplay hér á landi og víðar um Evrópu.

Félagið hefur verið með sterka stöðu á Norðurlöndunum og mun opna á Viaplay í Eystrasaltsríkjunum í mars, Póllandi í ágúst og í Bandaríkjunum í árslok 2021. Félagið stefnir á að bæta við fimm ríkjum til viðbótar ársins 2023 og vera með 10,5 milljónir áskrifendur árið 2025, þar af 4,5 milljónir utan Norðurlandanna. 

Í dag er félagið með um 3 milljónir áskrifenda á Norðurlöndunum, en stefnt er að því að tvöfalda það. Í umfjöllun FT er bent á að félagið sé eitt fárra sem tekist hafi að standa í hárinu á risum á borð við Netflix á sínum heimamarkaði en áætlað er að Netflix sé með um 4,2 milljónir áskrifenda á Norðurlöndunum.

FT bendir á að félagið íhugi nú tvískráningu, þannig að félagið verði einnig skrá á markað í Bandaríkjunum. Útboðið mun þynna núverandi hluthafa um 12,7%. 

Viaplay tryggði sér nýlega sýningarréttinna að hluta Meistaradeildar Evrópu hér á landi og leikjum karlalandsliðsins í knattspyrnu. Félagið hefur ekki vilja tjá sig um hvort það bjóði í sýningarrétt að enska boltanum á næsta ári en félagið hefur þegar tryggt sér sýningarrétt að ensku úrvalsdeildinni á Norðurlöndunum.