Richard Branson, eigandi Virgin Atlantic flugfélagsins hvatti þá starfsmenn sem nýlega hafa hótað verkfalli til að finna sér vinnu annars staðar. Í bréfi sem hann sendi 4.800 starfsmönnum sagði Branson að hann myndi ekki mæta nýjum launakröfum sem starfsmenn hafa sett fram. Verkalýðsfélag starfsmanna flugfélagsins sagði bréfið vera „ögrandi".

Nýlega samþykktu starfsmenn flugfélagsins að fara í verkfall í janúar en helsta krafa þeirra er hækkun á yfirvinnutöxtum sem þeir segja lægri en hjá öðrum flugfélögum, þar á meðal British Airways. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. Til stendur að taka tvær 48 klukkustunda verkfallslotur dagana 9.-10. janúar og 16.-17.janúar.

Branson sagði í bréfi sínu að flugfélagið hefði dregið línuna í sandinn hvað varðar launahækkanir á árinu. Hann segir að frekari hækkanir setji slæmt fordæmi fyrir fyrirtækið og setji rekstur þess í hættu. „Það væri óábyrgt af stjórnendum félgsins og þeir munu, réttilega ekki taka þær áhættur."

Hann viðurkenndi að í einhverjum tilvikum greiddu önnur flugfélög betri laun en Virgin Atlantic en lagði áherslu á smæð félagsins og sagði starfsmannastefnuna góða. „Fyrir suma skiptir máli að fá hærri tekjur en Virgin Atlantic getur boðið. Ef það er málið ættuð þið að hugsa ykkur að vinna annars staðar," sagði Branson í bréfi sínu til starfsmanna. Talsmenn félagsins hafa útilokað viðsnúning í kjaraviðræðum.

Talsmaður verkalýðsfélagsins, Unite segir að bréfið sé ekki gott innlegg í umræðuna og hafi sett fólk í uppnám. Á sama tíma segir talsmaður flugfélagsins að margir starfsmenn hafi haft samband og tilkynnt að þeir muni mæta til vinnu á tilgreindum verkfallsdögum.