Eigendafundur Orkuveitu Reykjavíkur fór fram fyrr í kvöld. Á fundinum voru teknar aftur ákvarðanir frá umdeildum eigendafundi þann 3. október síðastliðinnn varðandi samruna Reykjavik Energy Invest og Geysis Green Energy. Að sama skapi var Bryndísi Hlöðversdóttur, stjórnarformanni Orkuveitunnar falið að leita sátta við aðra eigendur REI og GGE.

Einnig fólu eigendur OR forstjóra fyrirtækisins, Hjörleifi Kvaran, að leita sátta í málaferlum Svandísar Svavarsdóttur gegn Orkuveitu Reykjavíkur vegna lögmætis fyrrnefnds fundar.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá Orkuveitunni að allar tillögur sem fyrir fundinum lágu hafi verið samþykktar samhljóða. Einnig að borgarstjóri Reykjavíkur hafi kynnt fundinum bókanir sem borgaryfirvöld hafi gert varðandi málefni Orkuveitunnar m.a. að hann muni beita sér fyrir viðræðum ríkis, sveitafélaga og meðeiganda í Hitaveitu Suðurnesja um framtíð fyrirtækisins.

„Enn fremur lagði borgarstjóri fram bókun borgarráðs Reykjavíkur varðandi upplýsingaöflun um fyrirætlanir OR, virkjanaáform, stöðu framkvæmda,  viljayfirlýsinga og samninga, auk yfirlits yfir þá aðila sem hafa óskað eftir viðræðum um orkukaup.“ segir í fréttatilkynningunni frá því í kvöld.

Fulltrúar eigenda OR munu hittast aftur föstudaginn 23. nóvember.