Nú um mánaðarmótinn bættust sex nýir liðsmenn í eigendahóp Deloitte, se nú samanstendur af 35 eigendum á öllum fagsviðum. Nýju eigendurnir eru:

Birna María Sigurðardóttir

Birna hóf störf á endurskoðunarsviði Deloitte árið 2008 og hlaut löggildingu til endurskoðunarstarfa árið 2013. Frá 2015 hefur Birna jafnframt starfað í Áhættuþjónustu Deloitte. Birna stýrir meðal annars úttektum á innra eftirliti tölvukerfa, staðfestingarverkefnum á innra eftirliti þjónustuaðila og verkefnum á sviði áhættustýringar og myndrænnar greiningar á fjárhagsupplýsingum. Birna hefur einnig sérhæft sig í þjónustu Deloitte á sviði nýrrar persónuverndarlöggjafar.

Guðni Björgvin Guðnason

Guðni er yfirmaður upplýsingatækniráðgjafar Deloitte. Guðni er tölvunarfræðingur frá Háskóla Íslands og hefur reynslu af stjórnun upplýsingatæknideilda og uppbyggingu og stjórnun fyrirtækja. Guðni var forstöðumaður upplýsingatæknideildar Landsbankans, deildarstjóri upplýsingatæknideildar álversins í Straumsvík, stofnandi og framkvæmdastjóri Álits sem síðar varð ANZA og framkvæmdastjóri Lyfja og Heilsu. Guðni hóf störf hjá Deloitte árið 2015.

Haraldur Ingi Birgisson

Haraldur starfar á Skatta- og lögfræðisviði Deloitte auk þess að vera forstöðumaður viðskipta- og markaðstengsla. Haraldur er lögfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og öðlaðist lögmannsréttindi árið 2011. Haraldur hóf störf hjá Deloitte í byrjun árs 2014, en var þar áður aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands frá árinu 2010. Innan Skatta- og lögfræðisviðs sinnir Haraldur helst verkefnum á sviði milliverðlagningar og alþjóðlegs skattaréttar.

Jóhann Óskar Haraldsson

Jóhann hóf störf á endurskoðunarsviði Deloitte árið 2000 og hefur jafnframt starfað hjá Deloitte í Bretlandi þar sem hann vann við endurskoðun og aðrar þjónustu tengda fjármálafyrirtækjum. Jóhann hlaut löggildingu til endurskoðunarstarfa árið 2011. Nýverið tók Jóhann við stöðu innan Áhættuþjónustu Deloitte þar áhersla er lögð á fjölbreytta þjónustu við fjármálafyrirtæki á sviði áhættustýringa og þjónustu tengdri eftirlitskyldri starfsemi.

Lovísa Anna Finnbjörnsdóttir

Lovísa er sviðsstjóri Fjármálaráðgjafar Deloitte. Lovísa er með með M.Sc.-gráðu í fjármálaverkfræði, M.Acc.-gráðu í reikningsskilum og endurskoðun og B.Sc.-gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Lovísa hefur víðtæka reynslu á sviði fjármálaráðgjafar og hefur stýrt fjölbreyttum verkefnum fyrir mörg af stærstu fyrirtækjum á íslenskum markaði, meðal annars á sviði áreiðanleikakannana, kaup- og söluráðgjafar, verðmatsþjónustu og líkanasmíði. Lovísa hóf störf hjá Deloitte árið 2011.

Sunna Dóra Einarsdóttir

Sunna starfar á sviði Viðskiptalausna hjá Deloitte og er jafnframt fjármálastjóri Deloitte. Sunna er með M.Sc. gráðu í hagfræði og stjórnun frá Aarhus University í Danmörku og hefur m.a. starfað sem kennari við Copenhagen Business School. Hún starfaði áður sem ráðgjafi hjá Deloitte í Danmörku í nokkur ár. Sunna hefur meðal annars unnið að uppbyggingu Viðskiptalausnasviðs Deloitte á Íslandi, þar sem hún stýrir verkefnum sem snúa að tímabundnum ráðningum og ferlaumbótum innan fjármálasviða. Sunna hóf störf hjá Deloitte árið 2014.