Guðmundur Karl Sigurdórsson og Jóhanna Sigríður Hannesdóttir hafa keypt Sunnlenska fréttablaðið af Bjarna Harðarsyni og Elínu Gunnlaugsdóttur og tóku við rekstri blaðsins um síðustu mánaðarmót.

Sunnlenska fréttablaðið verður áfram rekið með óbreyttu sniði sem vikulegt fréttablað á Suðurlandi. Blaðið hóf göngu sína á haustmánuðum 1991 og hefur komið út óslitið síðan. Bjarni Harðarson er einn fjögurra stofnenda blaðsins og ritstjóri þess fyrstu 15 árin. Stofnendur voru auk Bjarna þeir Sigurður Bogi Sævarsson blaðamaður, Gunnar Sigurgeirsson ljósmyndari og Kjartan Jónsson prentari. Bjarni og Elín hafa verið eigendur að blaðinu frá 1995.

Guðmundur Karl Sigurdórsson hóf störf á Sunnlenska fréttablaðinu sumarið 1995 og hefur starfað þar síðan við blaðamennsku, með hléum. Hann var ritstjóri blaðsins veturinn 1997-´98 og aftur frá apríl 2007.

Síðastliðin ár hafa hjónin Bjarni og Elín rekið Sunnlenska bókakaffið, sem er til húsa í sama húsi og Sunnlenska fréttablaðið. Þau munu áfram eiga og reka bókakaffið.

Þetta kemur fram í Sunnlenska fréttablaðinu.