Eigendaskipta gæti mögulega verið að vænta hjá bandaríska flugfélaginu Virgin America Inc.

Samkvæmt Wallstreet journal undirbúa nú bæði flugfélögin Jet Blue Airways og Alaska Air Group tilboð í félagið.

Gangi félagið að öðru hvoru tilboðinu gæti það gefið til kynna að samþjöppun á markaðnum sé nú í meira mæli að færast til svæðisbundinna flugfélaga og lággjaldaflugfélaga í Bandaríkjunum. Samþjöppun á bandaríska flugmarkaðnum á árunum 2008- 2013 olli því að átta flugfélög sameinuðust í fjögur sem nú stjórna 80% af innlenda flugmarkaðnum. Um er að ræða félögin American Airlines, Delta Air Lines, United Continental Holdings og Southwest Airlines.

Virgin America er tiltölulega lítið flugfélag sem var stofnað árið 2007. Félagið skilaði tapi allt til ársins 2013 þegar hagur félagsins tók að vænkast. Félagið sem er um þessar mundir níunda stærsta bandaríska flugfélagið á markaðnum hóf nýlega að stækka við sig og fjárfesti í fimm nýjum Airbus flugvélum í fyrra og tilkynnti nýlega að fimmtán nýjar vélar myndu bætast við flotann á þessu ári.