Eigendum Haga hf. hefur fækkað um rúmlega helming frá því að hlutabréf í félaginu voru tekin til viðskipta í Kauphöllinni í desember 2011. Þá voru hluthafar alls 2.744 talsins en í dag eru þeir 1.198.

Viðskiptablaðið tók saman upplýsingar um fjölda eigenda íslensku félaganna á aðalmarkaði í Kauphöllinni og leit sérstaklega til þeirra félaga sem hafa verið skráð á markað á síðustu misserum. Frá því að bréf Eimskips, Regins og Haga voru tekin til viðskipta hefur hluthöfum fækkað í öllum tilvikum, langtum mest hjá Högum. Á þeim þremur vikum sem Eimskip hefur verið á markaði hefur hluthöfum fækkað um 87 eða rúmlega 3%. Reginn var skráður á markað í byrjun júlímánaðar og voru hluthafar þá 1.083. Í dag eru þeir rúmlega 12% færri og eru alls 950.

Hluthafar í Icelandair eru í dag 1.433 talsins en voru rúmlega 3% fleiri að lokinni hlutafjáraukningu í byrjun síðasta árs. Tölur um fjölda hluthafa voru fengnar frá fyrirtækjunum sjálfum fyrr í þessari viku.

Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær. Áskrifendur geta nálgast það hér að ofan undir liðnum tölublöð.