Eigendur samtals 65,65% af útistandandi skuldabréfum Marels í flokki MARL 06 1 hafa tekið tilboði Marels um endurkaup á bréfunum, andvirði 1.510 milljónir króna að nafnvirði. Tilboð Marels var skilyrt.

Verðið sem tilboðið fól í sér var par verð þess dags sem möguleg endurkaup fara fram. Eftir möguleg endurkaup á skuldabréfunum nema útistandandi bréf í flokknum 790 milljónum króna, eða um 13% af heildarflokknum sem er 6.000 milljónir króna að nafnverði.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Marel.

„Við þökkum skuldabréfaeigendum fyrir jákvæðar undirtektir við tilboðinu. Möguleg endurkaup gera félaginu kleift að draga frekar úr gjaldeyrisáhættu auk þess að vera mikilvægt skref í áætlun okkar um að tryggja fyrirtækinu stöðuga og hagkvæma nýja fjármögnun. Stefna Marel er að fjármagna félagið í samræmi við tekjusamsetningu. Eins og fram hefur komið eigum við um þessar mundir í formlegum viðræðum við alþjóðlega banka um slíka fjármögnun,“ segir Erik Kaman, fjármálastjóri Marels í tilkynningu.