Að meðtöldum eignarhlut Íslandsbanka hafa eigendur að 99,54% hlutafjár samþykkt yfirtökutilboð Íslandsbanka í BNbank (Bolig- og Næringsbanken ASA) í Noregi. Framlengdu tilboðstímabili lauk 30. desember og hefur Íslandsbanki fengið samþykki eigenda 9,709,328 hluta í BNbank. Kaup Íslandsbanka á BNbank eru háð heimild lögbærra yfirvalda í Noregi og á Íslandi og fullnægjandi niðurstöðum áreiðanleikakönnunar.

Íslandsbanki hefur þegar sent umsókn til norska fjármálaeftirlitsins, norska fjármálaráðuneytisins og íslenska fjármálaeftirlitsins um heimild til kaupa á BNbank. Íslandsbanki mun óska eftir innköllun á þeim bréfum sem eftir kunna að standa, í samræmi við hlutafélagalög í Noregi, að fenginni heimild frá yfirvöldum til kaupa á hlutafénu og ef niðurstöður áreiðanleikakönnunar eru fullnægjandi.