Rio Tinto Alcan hefur með endurnýjun samninga við Landsvirkjun tryggt sér orku fyrir álverið í Straumsvík næstu 25 árin. Sífellt þrengir þó að á orkumarkaði í heiminum og forstjóri Rio Tinto telur kjarnorkuna verða sífellt álitlegri kostur.

Kostnaðarverð í álframleiðslu er mjög háð raforkuverði sem fer ört hækkandi. Tom Albanese, forstjóri Rio Tinto, sem kom hingað til lands á dögunum, sagði að hækkandi orkuverð í Evrópu hafi leitt til lokunar álvera, m.a. hjá Rio Tinto Alcan samsteypunni í Bretlandi sem á og rekur álverið í Straumsvík.

Endurnýjun á framleiðslutækni í Straumsvík með straumhækkun í bræðslunni og nýr orkusamningur við Landsvirkjun eigi að tryggja reksturinn hér á landi til 2035. Endurnýjun álversins miðar að framleiðslu á hágæða áli.

Hann útilokar ekki frekari fjárfestingar á Íslandi en þær sem nú er verið að vinna eftir við framleiðsluaukningu álversins í Straumsvík. Það sé þó á valdi hluthafanna. Vaxandi erfiðleikar hjá álverum í Evrópu

„Við teljum að sum evrópsku álveranna, ekki endilega okkar álver, muni eiga í erfiðleikum á næstu tíu árum. Þau munu eiga í erfiðleikum með að fá raforku. Við munum því reyna að ná til okkar verðmætustu framleiðsluvörum þeirra með uppfærslu í álverum okkar.“

Albanese segir að mörg þessara álvera byggi á úreltri framleiðslutækni og séu of dýr í rekstri miðað við að framleiðslukostnaður sé í kringum 2.300 dollarar á tonnið.

Varðandi möguleika samsteypunnar á frekari úrvinnslu á áli séu þó aðrir betur hæfir til slíks, enda gangi öll starfsemi Rio Tinto út á frumvinnslu, þ.e. námuvinnslu, hráefnavinnslu og málmbræðslu. Fylgjast náið með öllum orkumöguleikum Hvað ef þið fáið ekki meiri orku á Íslandi en nú er, hvert getið þið farið?

„Ég held að það sé enn möguleiki á meiri vatnsorku og annarri hreinni orku á Íslandi. Við munum fylgjast með framvindunni en það er þó undir hluthöfum og fjárfestum komið að takast á við það,“ segir Albanese.

Bendir hann á að á Íslandi sé orka fyrir framleiðsluaukningu og starfsemi álversins í Straumsvík tryggð næstu 25 árin. Það verði því höfuðverkur annarra að taka á þeirri stöðu sem uppi verði eftir það.

„Það eru aðrir staðir í heiminum sem bjóða upp á rafmagn sem framleitt er með vatnsorku. Þar þrengir þó stöðugt að. Við munum hafa augun opin varðandi þá möguleika sem þar er að finna. Ég myndi ekki útiloka neina staði en á þessum tímapunkti eru okkar lengst komnu verkefni í Malasíu, í Vestur-Afríku og nokkur í Suður-Ameríku,“ segir Tom Albanese