Atlantsolía hagnaðist um 112,4 milljónir króna í fyrra. Þetta er 85% samdráttur á milli ára en olíufélagið hagnaðist um 776 milljónir króna árið 2010. Samanburðurinn er þó vart marktækur þar sem afkoma Atlantsolíu árið 2010 skýrðist af endurútreikningi á gengislánum í samræmi við dóma þessa efnis.

Eigendur félagsins fá 375 milljónir króna í arð vegna afkomu síðasta árs. Þetta er fyrsta skiptið sem félagið greiðir hluthöfum sínum arð frá því Atlantsolía tók til starfa.

Rekstrarhagnaður (EBITDA) olíufélagsins endurspeglar áhrif endurútreikningsins á uppgjör Atlantsolíu. Hann nam 428,6 milljónum króna samanborið við 405,3 milljónir króna árið 2010.

Eignir Atlantsolíu eru í ársreikningnum metnar á 3,6 milljarða króna sem er sambærilegt á milli ára. Skuldir á móti upp á 2,6 milljarða króna samanborið við rúma 2,7 milljarða árið 2010. Eigið fé félagsins nemur rétt upp á rúman milljarð sem er tæplega 100 milljóna aukning á mili ára.