Hægst hefur á sölu atvinnuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu undanfarnar vikur og mánuði. Eigendur atvinnuhúsnæðis gengur illa að selja á uppsettu verði og hafa margir gripið til þess ráðs að leiga það út í stað þess að selja ódýrt.

Stórar og tómar eignir standa nú í nýrri hverfum á svæðinu en Helgi Bjarnason, löggiltur leigumiðlari og fasteignasali hjá Atvinnueignum, segir það ekki óeðlilegt. Alltaf taki tíma að selja atvinnuhúsnæði í nýjum hverfum.

„Fyrst þarf að fylla íbúðarhúsnæðið í hverfinu og svo fylgir hitt á eftir. Af hverju ætti iðnaðarhúsnæði að fyllast á undan íbúðarhúsnæði? Þeir sem vilja kaupa eða leigja slíkt húsnæði vilja auðvitað sjá fólk fyrst í hverfinu áður en þeir koma þarna inn,” segir Helgi.

Helgi er ekki sammála því að verktakar og aðrir hafi farið of geyst í sakirnar undanfarin ár. Enginn hafi getað séð fyrir þær aðstæður sem nú ríkja á fjármálamarkaði.

Þótt atvinnuhúsnæði standi tómt og efnahagsaðstæður séu erfiðar í dag segist hann ekki eiga von á mikilli lækkun á verði atvinnuhúsnæðis eða leigu þess.

„Leiguverð hlýtur að tengjast raunverði fasteignar, sem er kostnaður við lóð, framkvæmdir og álag ofan á það. Fái menn ekki það verð í sölu eða leigu er einhver að tapa. Það verður mikil tregða við að fara niður fyrir þetta verð,“ segir Helgi.

Ásgeir Erling Gunnarsson, löggiltur fasteignasali hjá Húsanausti, segir erfitt að spá í stöðu atvinnuhúsnæðis þessa dagana. Það sé þó ljóst, þegar flett sé upp í eignaskrám á netinu, að nánast allt atvinnuhúsnæði sé til leigu, en ekki til sölu. Það sé stóra breytingin.

Hann segir tilfinningu sína vera þá að of mikið framboð sé af atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og það eigi sinn þátt í því hve mikið af slíku húsnæði sé til leigu í dag. Hann segist þó ekki eiga von á milli lækkun á fasteignum eða leiguverði þeirra. Fasteignaeigendur haldi frekar að sér höndum og bíði og sjái hvað gerist.

_______________________________________

Nánar er fjallað um stöðu atvinnuhúsnæðis í Viðskiptablaðinu á morgun.

Áskrifendur geta, frá kl. 21 í kvöld, lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .