Félög Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Ingibjargar Pálmadóttur og Hreins Loftssonar eru í hlutfallslegri ábyrgð fyrir tæplega fimmtíu milljarða króna skuld 1998 ehf. við Kaupþing. 1998 er félagið sem keypti Haga útúr Baugi í júlí 2008.

Nú er til skoðunar innan Kaupþings að afskrifa lán félagsins gegn því að nýtt hlutafé komi inn í Haga.

Í lánabók Kaupþings, sem birt var á wikileaks.org, kemur fram að til tryggingar fyrir endrugreiðslu á láninu til 1998 sé 95,7% eignarhlutur í Högum og 35% hlutur í Baugi. Jafnframt kemur fram að eigendur beri hlutfallslega ábyrgð (pro rata). Oftast þýðir það að eigendur bera ábyrgð á lánum félagsins í sama hlutfalli við eign sína í félaginu.

Samkvæmt lánabókinni á Fjárfestingafélagið Gaumur, sem er í eigu Jóns Ásgeir og fjölskyldu hans, 82,3% í 1998. Eignarhaldsfélagið ISP, sem er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, á 8,9% hlut og Bague SA, sem Hreinn Loftsson ræður yfir samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, á 8,8%.