Landsbanki Íslands og Deutsche Bank hafa sölutryggt 300 milljón punda endurfjármögnun á Iceland-verslunarkeðjunni, sem er að mestu í eigu Baugs og eignarhaldsfélagsins Fons, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Andvirði endurfjármögnunarinnar, sem samsvarar um 39 milljörðum íslenskra króna, verður nýtt til að greiða eigendum félagsins arð og samkvæmt upplýsingum frá Baugi er um að ræða stærstu aðgreiðslu fá erlendu félagi til íslenskra eigenda frá upphafi. Arðgreiðslan nemur 37 milljörðum króna.

"Við getum ekki verið annað en ánægðir, enda sá viðsnúningur sem orðið hefur á fyrirtækinu frá því við tókum það yfir, verið ótrúlegur,? segir Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs

Hann segir að góðu gengi félagsins megi þakka frábæru stjórnunarteymi sem unnið hefur vel saman. ?Og ég er ekki í minnsta vafa um að þessi arður muni efla félagið til frekari sigra og landvinninga í náinni framtíð enda Iceland í mikilli sókn,? segir Jón Ásgeir.

Þetta er í annað sinn sem Iceland-verslunarkeðjan er endurfjármögnuð í þeim tilgangi að greiða eigendum sínum arð. Í fyrra sölutryggði Landsbankinn 160 milljón punda endurfjármögnun á félaginu.

Hópur fjárfesta, undir forystu Baugs og eignarhaldsfélagsins Fons, keyptu The Big Food Group fyrir 326 milljónir punda. The Big Food Group var móðurfélag Iceland-verslunarkeðjunnar og Booker-verslunarkeðjunnar og afskráðu kaupendurnir félagið, sem skráð var í kauphöllina í London, með stuðningi Bank of Scotland, Kaupþings banka og Landsbanka Íslands.