„Við fögnum því að málið sé í farvegi og við munum fyrir okkar leyti leita leiða til að ljúka þessu máli sem fyrst,“ segir Einar Einarsson, framkvæmdastjóri Capacent, í samtali við Viðskipablaðið um mat dómskvaddra matsmanna sem telja eigendur fyrirtækisins skulda þrotabúi gamla Capacent tæpar 170 milljónir króna. Starfsmenn Capacent keyptu félagið á 85,9 milljónir króna og vörumerkið á sex milljónir þegar félagið stefndi í þrot.

Einar bendir á að matið taki mið af stöðu félagsins og drögum að samningi vorið 2010. Matsmennirnir hafi verið fengnir til að meta stöðu Capacent haustið 2010 sem þeir gerðu ekki. Staða félagsins versnaði nokkuð um sumarið og því ber nokkuð þarna á milli.

„Matið sýnir líka fram á að það er mjög erfitt að meta verðmæti ráðgjafafyrirtækis þar sem helstu verðmætin felast í starfsfólkinu og þekkingu þeirra,“ segir Einar.

Að sögn Einars hefur ekki verið tekin ákvörðun um það hvort Capacent muni fara fram á yfirmat en að leitað verði eftir sáttum í málinu.

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu 27. september síðastliðinn. Áskrifendur geta nálgast blaðið allt hér að ofan undir liðnum Tölublöð.