*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Fjölmiðlapistlar 16. apríl 2017 11:17

Eigendur fjölmiðla

Fjölmiðlarýnir Viðskiptablaðsins fjallar um kínamúra á milli ritstjórna fjölmiðla og annarra deilda fyrirtækjanna.

Andrés Magnússon
Haraldur Guðjónsson

Þegar menn setjast niður með spekingssvip til þess að ræða fjölmiðla, ábyrgð þeirra og lýðræðislegar skyldur, er gjarnan minnst á Kínamúrana miklu innan þeirra. Oftast þá hina ókleifu múra, sem vera skuli milli ritstjórnar og auglýsingadeildar, en einnig nefna menn stundum þann mikla og þykka vegg, sem vera þurfi milli ritstjórnar og eigenda miðilsins. Nauðsynin á þessu þykir sumum svo mikil að nauðsynlegt sé að festa hana í lög, stjórnarskrá jafnvel!

Það er alveg rétt, að þarna á milli á ekki að vera of mikið samband, þó það sé nú tæpast ástæða til þess að banna mönnum að talast við á kaffistofunni. Fréttaflutningur á ekki og má ekki stýrast af stundarhagsmunum auglýsingadeildarinnar eða því sem eigendunum kann að henta (eða því sem menn halda að eigendunum henti). Hann á aðeins og ævinlega að stýrast af hagsmunum almennings.

Hvort það er ástæða til þess að binda slíkt í lög er önnur saga. Þess háttar hórerí, húsbóndahollusta eða óheiðarleiki sést oftast langar leiðir þegar í stað og kemst ævinlega og undantekningalaust upp um síðir. Fjölmiðlar, sem verða berir að slíku, fyrirgera trúverðugleika sínum og gjaldfella sig svo rækilega að þeir eiga erfitt uppdráttar gagnvart lesendum, áheyrendum eða áhorfendum, en þá týna auglýsendur skjótt tölunni líka. — Svona yfirleitt, þó vissulega hafi fríblöðin dregið úr þessu beina valdi almennings yfir velgengni miðlanna.

Eins og sjá má á línuritinu hér til hliðar yfir útbreiðslu prentmiðla má þó glögglega greina að fríblöðin hafa ekki fullt vald yfir útbreiðslunni með því einu að dæla pappírnum inn um lúguna hjá varnarlausum lesendum.

* * *

Sennilegast er þó of mikið gert úr óhollum áhrifum eigenda eða auglýsingadeilda á fjölmiðla. Fjölmiðlarýnir hefur á langri starfsævi öðru hverju orðið vitni að ýtni starfsmanna auglýsingadeilda gagnvart ritstjórnum, en aldrei þannig að það hafi nokkru skipt. Stundum hafa raunar komið ágætar fréttaábendingar úr þeirri átt og vissulega eiga flestir miðlar í vel skilgreindu samstarfi á milli þessara deilda (auglýsingakálfur um vinnuvélar, ferðablöð, sérdagskrá af menningarhátíðum í hinum þessum sveitarfélögu o.s.frv.) En að ritstjórnir fari að þjóna auglýsendum á kostnað trúnaðar við lesendur, því hefur yðar einlægur einfaldlega ekki kynnst.

Því skal þó ekki neitað að í seinni tíð hefur endrum og sinnum sést til einkennilegs kynningarefnis í netmiðlum. Sennilegast ræður reynsluleysi mestu þar um. Og lesendur virðast nokkuð naskir við að sjá slíkt skrum á færi, svo það eru nokkrar vonir til þess að það minnki senn.

* * *

En það er þetta með eigendurna, geta áhrif þeirra verið of mikil, til óþurftar og jafnvel óheilla? Jú, það getur alveg örugglega gerst. Það hefur meira að segja alveg örugglega gerst, eins og menn þekkja sjálfsagt best af Fréttablaðinu að fornu og nýju. En það er undantekning og ef auðkýfingar vilja verja fúlgum fjár í slíkar æfingar er erfitt að sjá hvernig koma megi í veg fyrir það án þess að tjáningarfrelsinu sé hætta búin um leið.

Þetta með eigendavaldið er líka frekar flókið viðfangs. Menn sáu það á sínum tíma (eða aðallega eftir á!) hvernig eigendur Fréttablaðsins beittu því í eiginhagsmunaskyni, bæði svona almennt í bisness, en þó alveg sérstaklega við málsvörn sína í sakamálum og ýmsum snúningum öðrum. Hin síðari ár hefur öðru hverju sést blika í sama stál, bæði á ritstjórnarsíðum og fréttasíðum. Er það gagnrýnisvert? Já, alveg örugglega. En það er ekki þar með sagt að það eigi að vera bannað.

Á sama tíma sér maður reglulega minnst á það að fólk í sjávarútvegi eigi of mikið í Morgunblaðinu og blaðið sé óþreytandi að styðja við núverandi fyrirkomulag um stjórn fiskveiða. Svona milli þess sem Davíð Oddsson fái á óskiljanlegan hátt að tjá sig um efnahagskreppu heimsins, sem hann sjálfur orsakaði niðri við Kalkofnsveg fyrir áratug.

Þarna á milli er mikill munur. Skoðun blaðsins á sjávarútvegi er ekki bundin við einkahagsmuni eigendanna og hún smitast ekki yfir á fréttasíðurnar. Ekki frekar en snarpar athugasemdir Davíðs. Og það er höfuðatriðið.

* * *

Fjölmiðlar verða vitaskuld ekki gefnir út í óþökk eigenda þeirra og þeir geta að sjálfsögðu haft talsvert að segja um stefnu þeirra og skoðun. Ritstjórn Fréttablaðsins getur ekki upp á sitt eindæmi ákveðið að héðan í frá verði það helgað krossgátum og prjónauppskriftum.

Eða ritstjórn Fréttatímans að það eigi að vera málgagn Sósíalistaflokksins. Meira um það síðar, en þangað til getum við hlakkað til upprisu Messíasar.

Stikkorð: Fjölmiðlarýni