Nýtt félag undir heitinu IEI slhf. hefur verið stofnað en félaginu er stjórnað af Framtakssjóði Íslands. „Hann heldur utan um þá fjármuni sem fengust út úr sölu á verksmiðjum í Bandaríkjunum hjá Icelandic Group,“ segir Brynjólfur Bjarnason, framkvæmdastjóri Framtakssjóðsins, í samtali við Viðskiptablaðið um tilgang félagsins.

Heiti hins nýja félags eða sjóðs stendur fyrir Icelandic Enterprise Invest. Þess má geta að Brynjólfur er einnig framkvæmdastjóri hins nýstofnaða félags.

Stofnendur IEI slhf. eru sömu eigendur og koma að Framtakssjóðnum. Þar á meðal er Landsbankinn, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi lífeyrissjóður sem eru stærstu eigendur Framtakssjóðsins auk smærri lífeyrissjóða. Greint var frá því í nóvember 2011 að Framtakssjóðurinn hefði selt norður-ameríska matvælafyrirtækinu High Liner eignir Icelandic Group í Bandaríkjunum og í Kína fyrir rúmlega 27 milljarða króna. Einnig voru seldar erlendar eignir í Þýskalandi og Frakklandi út úr Icelandic Group. Samtals voru eignir fyrir um 41 milljarð seldar en þar af var 21 milljarður greiddur með yfirtöku skulda sem hvíldu á starfseminni samkvæmt tilkynningu Framtakssjóðsins á sínum tíma.