Krónan hélt áfram að styrkjast í dag sem kemur mörgum á óvart í því pólitíska upplausnarástandi sem nú ríkir. Sérfræðingar á markaði telja að um sé að ræða framhald á þróun síðustu viku og skýringarnar svipaðar og fyrr, þ.e.a.s. möguleg inngrip Seðlabanka.

Einnig gætu útflytjendur og aðrir eigendur gjaldeyris verið að finna fyrir því að sjá höfuðstól sinn minnka í krónum talið á nær vaxtalausum gjaldeyrisreikningum þegar þeir gætu verið að fá háa innlenda vexti.

,,Óvissa í stjórnmálunum hefur lika takmörkuð áhrif þegar markaðurinn er svona skilyrtur, en hefði að öllum líkindum veikt krónuna nokkuð ef enn væri hægt að eiga viðskipti ótengd viðskiptajöfnuðinum," sagði einn sérfræðingur sem rætt var við.