Danski verktakarisinn Pihl & Søn hefur hætt endurbótum á danska lúxushótelinu Hotel d'Angleterre í Kaupmannahöfn. Stjórnendur Pihl & Søn segja reikninga ekki hafa verið greidda og því hafi fyrirtækið og undirverktakar lagt niður störf í gær. Ógreiddir reikningar Hotel d'Angleterre nema að sögn danska dagblaðsins Ekstra Bladet 461 milljón danskra króna, jafnvirði næstum 10 milljarða íslenskra króna.

Byrjað var að laga hótelið til fyrir tveimur árum og er kostnaðurinn meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Bæði verktakarisinn og hótelið tengjast Íslandi á margan hátt. Pihl & Søn er móðurfyrirtæki Ístaks. Þá keypti fjárfestingarsjóðurinn Nordic Partners sem Gísli heitinn Reynisson stýrði hótelið ásamt öðrum síðla árs 2007. Skilanefnd Landsbankans eignaðist svo hótelið ásamt einkaþotuleigu Nordic Partners í byrjun árs 2010.