Hefðu neyðarlögin ekki verið samþykkt hefðu heimtur eigenda krafna vegna Icesave-innlána verið talsvert lægri en þau 43% sem þegar hafa verið gerð upp. Það eru því engar ýkjur að segja að eigendur Icesave-innlána hafi verið með stærstu sigurvegurunum þegar kemur að áhrifum neyðarlaganna, enda tryggðu þau fullar endurheimtur á höfuðstól þeirra krafna.

Þetta segir í fréttabréfi Júpiters, rekstrarfélagi verðbréfasjóða. Bent er á að gamli Landsbankinn hefur nú greitt tæplega 600 milljarða króna til sinna forgangskröfuhafa, sem nemur um 43% af kröfum þeirra.

Í fréttabréfinu er fjallað um þann beina kostnað ríkisins ef Icesave-samningarnir hinir síðustu hefðu verið samþykktir. „Uppreiknað miðað við 1.júlí 2012 væri beinn kostnaður íslenska ríkisins vegna Icesave-samninganna nú orðinn tæplega 60 milljarðar króna. Þar er gert ráð fyrir útgreiðslum til kröfuhafa Landsbankans og þar með lækkun krafna forgangskröfuhafa bankans. Samkvæmt Icesave-samningunum bar íslenska ríkinu að greiða Bretum og Hollendingum þessa vexti í erlendum gjaldmiðlum. Því er í raun rangt að bera þann kostnað saman við kostnað vegna Vaðlaheiðarganga, tónlistarhússins Hörpu, afskrifta krafna Seðlabanka Íslands á fallnar fjármálastofnanir eða rekstur Landspítalans. Talsverðu máli skiptir hvort kostnaður íslenska ríkisins fellur til í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum, sérstaklega í ljósi þess að gjaldeyrisvaraforði Seðlabankans er skuldsettur upp í rjáfur.“

Því sé hreinlega villandi að bera reiknaðan kostnað við Icesave saman við innlendan kostnað af einhverju tagi, eða bera Icesave-kostnaðinn saman við verga landsframleiðslu.

„Það er því vægast sagt villandi að bera reiknaðan kostnað við Icesave saman við innlendan kostnað af einhverju tagi eða bera Icesave-kostnaðinn saman við verga landsframleiðslu. Ríkissjóð sárvantar gjaldeyri til að standa skil á erlendum skuldum þjóðarbúsins – tilvist gjaldeyrishaftanna er ræk sönnun þeirrar staðreyndar. Að bæta að minnsta kosti 60 milljörðum króna í erlendri mynt ofan á allt saman hefði til skamms tíma sett ennþá meiri þrýsting á gengi íslensku krónunnar og til lengri tíma þyngt skuldabyrði ríkissjóðs í erlendri mynt þónokkuð. Fáir halda því fram að á þá skuldabyrði sé bætandi með sjálfbærum hætti. Ef síðustu Icesave-samningar hefðu orðið að lögum, hefði þurft að nýta sem nemur um 27 milljörðum króna af gjaldeyrisvaraforða Seðlabanka Íslands strax á fyrsta ársfjórðungi 2011 og síðan um nokkra milljarða á hverjum ársfjórðungi eftir það, allt til ársloka 2011 þegar fyrstu greiðslur hófust úr þrotabúi gamla Landsbankans,“ segir í fréttabréfi Júpiters.