Erfið samskipti við stjórnendur Íslandsbanka urðu til þess að stjórnarformaður og forstjóri bílainnflutningsfyrirtækjanna Ingvars Helgasonar ehf. og B&L ehf. hættu hjá fyrirtækinu í gær. Núverandi eigendur félagsins hafa þannig sagt sig frá stjórnun félagsins þó formlega séð séu þeir enn skráðir eigendur.

Að sögn Kristins Þórs Geirssonar, fráfarandi stjórnarformanns Eignarhaldsfélagsins Sævargarða ehf., var það ósk hans og Hauks Guðjónssonar, forstjóra félagsins að hætta. Sagði Kristinn Þór að ekki hefði verið hægt að starfa áfram við þau skilyrði sem þeim voru sett við stjórnun félagsins en það hefur ekki haft neinn aðgang að rekstrarlánum síðan bankakerfið hrundi síðasta haust.

,,Við erum ekki tilbúnir til þes að vinna þessi mál lengra miðað við framkomu manna. Bankinn er kannski að vinna eftir sínum vinnureglum en okkur finnst að skilaboðin hafi verið misvísandi og klaufaleg. Við sögðum hingað og ekki lengra enda hentaði það okkur ekki lengur að vinna eftir þessum forsendum. Það má lýsa þessu þannig að við teljum að miðað við hvernig menn nálgast þetta sé heppilegra fyrir okkur að fara frá þessu núna og félagið verði sett í sölumeðferð og við þá komið að þessu síðar,“ sagði Kristin Þór.

Buðust til að koma með nýtt fjármagn inn

Að sögn Kristins höfðu núverandi eigendur boðist til að koma með nýtt fjármagn inn í reksturinn en stemmningin væri þannig að ekki væri gefið færi á neinu slíku. Því væri best fyrir þá að fara frá félaginu en hann sagði að það gæti vel farið svo að einhverjir úr núverandi eigendahópi gerðu tilboð í það síðar meir.

Helstu lánadrottnar félagsins eru Íslandsbanki, Nýi Kaupþing, Lýsing og SP Fjármögnun. Bílaumboðin hafa verið rekin sitt í hvoru lagi en í eigu Eignarhaldsfélagsins Sævargarða ehf. en það var í meirihlutaeigu fjárfestingafélagsins Sund ehf. Kristinn og Haukur voru báðir meðal eigenda félagsins.

Aðspurður um þá útsölu bíla sem átti sér stað hjá Ingvari Helgasyni síðasta vor segir Kristinn að ráðist hafi verið í hana að kröfu Íslandsbanka sem tók til sín alla fjármuni sem komu inn enda var bankinn með veð í bílunum. ,,Við töldum betra að selja þetta hér heima en að flytja þá út og við sömdum við bankann um að fá smá þóknun fyrir söluna. Það var allt of sumt sem við höfðum upp úr því,“ sagði Kristinn.